Nr. 61 (2025): Ritröð Guðfræðistofnunar

					Skoða Nr. 61 (2025): Ritröð Guðfræðistofnunar

Í þessu hefti Ritraðar Guðfræðistofnunar eru fjórar ritrýndar greinar. Í fyrstu greininni fæst Arngrímur Vídalín, dósent við Deild faggreinakennslu á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, við hugmyndir Ágústínusar kirkjuföður frá Hippó um skrímsl og varpar ljósi á hugmyndasögulegan farveg þeirra til Íslands og viðtökur þeirra hér á landi á síðmiðöldum. Í annarri grein heftisins fjallar Björn Þór Vilhjálmsson, dósent við Íslensku- og menningardeild við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, um kvikmyndina Breaking the Waves eftir danska leikstjórann Lars von Trier. Í greiningu sinni dregur Björn fram trúarlega þræði myndarinnar og setur í samhengi við femínískar túlkunaráherslur en þessir þættir myndar-innar hafa hlotið mikla athygli túlkenda síðan myndin kom út árið 1996. Í þriðju greininni er að finna framhald á rannókn Hjalta Hugasonar, prófessors emerít-usar, á sjálfsvígum á nítjándu öld. Að þessu sinni leitast Hjalti við að varpa ljósi á ástæður sjálfsvíga á grundvelli þeirra heimilda sem aðgengilegar eru frá tímabilinu. Í fjórðu og síðustu greininni fjallar Rúnar Már Þorsteinsson, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild á Hugvísindasviði Háskóla Íslands, um siðfræðilegar áherslur í Fyrra Pétursbréfi og félagslegt samhengi þeirra en dygðin agapē fær sérstaka athygli í umfjölluninni. Auk þess færir Rúnar rök fyrir því að helsta fyrirmynd höfundar bréfsins sé Rómverjabréf Páls postula og það megi þannig staðsetja innan pálshefðar í hinu frumkristna landslagi.

Útgefið: 2026-01-08