„Meintar ástæður“ sjálfsvíga á Íslandi á nítjándu öld

Höfundar

  • Hjalti Hugason

Lykilorð:

sjálfsvíg, Ísland, nítjánda öld, sjálfsvígsaðferðir, samfélag

Útdráttur

Í rannsókninni er leitast við að varpa ljósi á ástæður sjálfsvíga á Íslandi á nítjándu öld. Aðeins í eitt skipti er mögulegt að staðfesta að maður hafi skilið eftir sig kveðjubréf og varpar það ljósi á sálarangist hans fyrir andlátið. Engar aðrar heimildir hafa aftur á móti komið fram sem varpað geta ljósi á þær ástæður sem hrundu fólki til sjálfsvíga út frá sjónarhóli þess sjálfs. Því hefur orðið að láta við það sitja að kanna hvaða ástæður þau sem næst stóðu töldu að legið hefðu til grundvallar. Í rannsókninni er byggt á tæplega 170 sjálfsvígum og er mögulegt að kveða upp úr um slíkar „meintar ástæður“ í 96 tilvikum. Er þar byggt á ýmsum heimildum en þó einkum réttarprótókollum en oft voru haldin réttarhöld í kjölfar sjálfsvíga.
Ljóst er að sterk tengsl voru talin milli sjálfsvíga og geðrænna veikinda eða vanda. Kemur það bæði fram í skýringum fólks við réttarpróf og í skrifum lækna. Voru 56, eða hátt í 60 af hundraði sjálfsvíganna 96, skýrð með þessum hætti. Næstflest, eða 13 sjálfsvíg, voru skýrð með félagslegri skömm sökum afbrota eða breytts almenningsálits af öðrum ástæðum. Fjögur til fimm sjálfsvíg voru skýrð með einhverri af eftirtöldum ástæðum: hjúskaparmál í uppnámi, örbirgð og örmögnun sökum hennar, líkamlegir sjúkdómar, einangrun m.a. vegna samskiptavanda og loks áfengisdrykkja. Í einu tilviki er mögulegt að líta svo á að trúarleg angist hafi valdið sjálfsvígi en þá ásamt fleiri ástæðum.
Út frá niðurstöðum könnunarinnar er nærtækara að álykta um afstöðu fólks til sjálfsvíga en um sjálfsvígin sjálf. Virðist meginniðurstaðan vera að mest sjálfsvígshætta hafi verið talin stafa af aðstæðum sem einangruðu einstaklinginn frá samfélagsheildinni eins og raun var á um þær meintu ástæður sem oftast voru tilfærðar. Erfiðleikar sem fólk deildi með megin-þorra þjóðarinnar, t.d. líkamlegir sjúkdómar og erfið kjör, voru síður talin skapa hættu í þessu efni.

Um höfund (biography)

Hjalti Hugason

Prófessor emeritus við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.

Niðurhal

Útgefið

2026-01-08