Fyrra Pétursbréf og siðfræðileg arfleifð Páls í Róm
Lykilorð:
Fyrra Pétursbréf, Róm, Páll postuli, Rómverjabréfið, siðfræði, kærleikur, agapēÚtdráttur
Greinin fjallar um Fyrra Pétursbréf sem var að öllum líkindum skrifað í Róm á síðari hluta fyrstu aldar e.Kr. Höfundur bréfsins kveðst vera Pétur postuli, en það er án efa falskt höfundarnafn. Efni bréfsins er að stórum hluta fólgið í miðlun siðferðilegra boða og hvatninga. Í greininni er kastljósinu beint að siðfræðilegum áherslum í Fyrra Pétursbréfi og forsendum þeirra. Gefið er yfirlit yfir siðferðisboðskap höfundar þar sem sérstaklega er fjallað um kærleikinn (agapē) sem megindygð í framsetningu hans. Einnig er athyglinni beint að félagslegu samhengi siðferðisboðskaparins og rök færð fyrir því að höfundur líti á agapē sem e.k. „innanhúss-dygð“ (þ.e.a.s. dygð sem er einskorðuð við trúsystkini). Að endingu er sú tilgáta sett fram og rökstudd að Rómverjabréf Páls postula hafi verið helsta fyrirmynd höfundar í siðfræðilegum efnum. Að því leyti má segja að Fyrra Pétursbréf standi innan pálshefðar í frumkristni.