„Mentor, hvernig skal eg þá ganga til hans … ?“
Starfsmenntun, starfsþjálfun og starfstengd leiðsögn prests- og djáknaefna
Lykilorð:
Starfsmenntun, starfsþjálfun, starfstengd leiðsögn, leiðsagnarkenningar, mentor, starfshæfnimat, aðstæðubundið nám, ígrundunarlíkan, lærlingslíkan, vettvangsnámÚtdráttur
Embættisskilningur vígðrar þjónustu er grundvallarþáttur í starfsþjálfun prests- og djákna-efna og gefur innsýn í inntak, samhengi og hefðir þess starfs sem neminn hefur hugsað sér að gegna í framtíðinni. Um leið og sérstaða hverrar starfsstéttar fyrir sig er óumdeild, er einnig mikilvægt að hafa í huga að allt sérfræðilegt starfsréttindanám (e. studies with professional recognition) á ýmislegt sameiginlegt, þvert á fagstéttir. Þessi tegund menntunar er tengd sið-ferðilegum gildum og siðareglum hverrar stéttar og hvort sem um er að ræða kennara, hjúkr-unarfræðinga, lækna eða sálfræðinga eru störfin flókin og fela í sér mikla ábyrgð, krefjast siðferðilegrar fagvitundar og fela gjarnan í sér tengsl við einstaklinga í viðkvæmum aðstæð-um og aldurshópum. Sérfræðistarfsmenntun byggist á kenningum og viðmiðum um nám, leiðsögn, þjálfun starfshæfni á vettvangi og inngöngu í fagstétt. Hún krefst góðra mentora, góðra námsramma og góðrar samvinnu milli þeirra aðila sem annars starfsmenntunina. Starfstengd leiðsögn í starfsmenntun er vaxandi þverfræðileg fræðigrein, en hefur lítið verið könnuð í fræðilegu samhengi innan íslensku kirkjunnar.
Þessi grein hefst með kafla um kenningar um þverfaglega starfstengda leiðsögn og þar eru tekin fyrir hugtök og líkön í sérfræðistarfsmenntun. Síðan er skipulag starfsmenntunar prests- og djáknaefna á Íslandi og í Noregi greint út frá téðum kenningum. Þörf væri á að bera saman prests- og djáknanám alls staðar á Norðurlöndum en rýmisins vegna takmarkar höfundur sig við að bera saman námsaðstæður á Íslandi og samsvarandi nám í Noregi. Spurningarnar sem varpað er fram fjalla um faglegar forsendur starfstengdrar leiðsagnar prests- og djáknaefna: Hvernig hefur leiðsögnin þróast? Hvað er mikilvægast að leggja áherslu á við leiðsögn verðandi presta og djákna til sjálfsákvörðunar, seiglu, þekkingar á starfinu og faglegrar sjálfsmyndar? Hver menntar mentorinn? Áherslan í þessari grein er þannig ekki lögð á hvað eigi að kenna í starfsmenntun prests- og djáknaefna, heldur hvernig það er gert.