„Jarðsett verður í heimagrafreit“
Nýbreytni í greftrunarsið Íslendinga á nítjándu og tuttugustu öld. Þriðja grein
Lykilorð:
Greftrunarsiður, heimagrafreitir, bændamenning, (íslensk) kirkjusagaÚtdráttur
Á síðasta fjórðungi nítjándu aldar ruddi athyglisverð nýjung sér til rúms í greftrunarsið Íslendinga. Í stað þess að látnir væru grafnir í sameiginlegum sóknarkirkjugörðum, eins og aldalöng hefð var fyrir hér á landi og annars staðar í hinum kristna heimi, sóttust nú stöðugt fleiri bændur eftir því að fá heimild yfirvalda fyrir því að þeir og nánustu ættmenn þeirra fengju að hvíla heima á bújörðum sínum. Sökum þess hve algengt þetta varð, sem og hve þetta brýtur í bága við hina kristnu hefð, er um athyglisvert trúar-, menningar- og félags-sögulegt fyrirbæri að ræða.
Í greininni er fengist við ýmsa þætti sem lúta að fagurfræði heimagrafreitanna og þá einkum hvernig þeim var valinn staður í nærumhverfinu og hvernig girðingum um þá var háttað þótt fleiri atriði komi og til álita. Einnig er grafist fyrir um hvaða áhrif heimagrafreitirnir höfðu á útfararathöfnina og hugað að tíðni heimagreftrana á Norðurlandi en þar voru heimagrafreitir einna flestir. Rannsóknin er byggð á áður ókönnuðum skjalagögnum í Þjóðskjalasafni Íslands og óútgefinni skýrslu umsjónarmanns kirkjugarða um heimagrafreiti í Múlaprófastsdæmi frá 2002 en þar voru heimagrafreitirnir flestir á landsvísu.
Sýnt er fram á að almennt hefur verið vandað til staðarvalsins og grafreitunum verið valinn staður þar sem hátt bar í túnum, á vatnsbakka, í trjágarði eða skógarlundi. Fyrir kom líka að grafreit var valinn staður fjær bæ og þá hefur valið byggst á fegurðarskyni, náttúruhyggju eða öðrum persónulegum sjónarmiðum. Yfirvöld kröfðust þess að grafreitir væru vandlega girtir með járnbentum steinsteypugarði með járngrind í hliði. Bændur létu þó oftast nægja að koma upp einfaldari og ódýrari girðingum. Kirkjunnar menn, einkum prófastar, virðast hafa stutt þá í því efni.
Með tilkomu heimagrafreita fluttust útfarirnar, að minnsta kosti framan af, í nokkrum mæli heim á bæina og urðu þá nokkurs konar millistig milli hefðbundinnar útfarar í kirkju og húskveðju. Alltaf var þó mikið flæði milli kirkjulegrar útfarar og heimagreftrunar og ekki hefur verið litið svo á að um tvö mismunandi útfararform væri að ræða sem val stæði um af trúarlegum ástæðum.
Þegar tíðni heimagreftrana er skoðuð kemur í ljós að vinsældum þeirra var ekki lokið þótt bann væri lagt við upptöku nýrra grafreita upp úr 1960. Þvert á móti hafa þær tíðkast víða allt fram á síðustu ár og sums staðar á siðurinn að líkindum framtíð fyrir sér.