„Jarðsett verður í heimagrafreit“

Nýbreytni í greftrunarsið Íslendinga á nítjándu og tuttugustu öld. Önnur grein

Höfundar

  • Hjalti Hugason

Lykilorð:

Greftrunarsiður, heimagrafreitir, bændamenning, kirkjusaga, Funeral traditions, private graveyards, farmers’ revival, church history

Útdráttur

Á síðasta fjórðungi nítjándu aldar ruddi athyglisverð nýjung sér til rúms í greftrunarsið Íslendinga. Í stað þess að látnir væru grafnir í sameiginlegum sóknarkirkjugörðum, eins og aldalöng hefð var fyrir hér á landi og annars staðar í hinum kristna heimi, sóttust nú stöðugt fleiri bændur eftir því að fá heimild yfirvalda fyrir því að þeir og nánustu ættmenn þeirra fengju að hvíla heima á bújörðum sínum. Sökum þess hve algengt þetta varð, sem og hve þetta brýtur í bága við hina kristnu hefð, er um athyglisvert trúar-, menningar- og félags-sögulegt fyrirbæri að ræða.

Í greininni er þessi nýbreytni kortlögð með því að grafast fyrir um raunverulegan fjölda grafreitanna, dreifingu þeirra um landið, sem og helstu fjölgunartímabil. Rannsóknin er að verulegu leyti byggð á áður ókönnuðum heimildum sem varðveittar eru í Þjóðskjalasafni Íslands og Legstaðaskrá á vefsvæði Kirkjugarðasambands Íslands, gardur.is.

Niðurstaðan er að um það bil 170 heimagrafreitir hafi verið stofnaðir á landinu en að dreifing þeirra hafi verið mjög mismunandi eftir landshlutum og byggðarlögum. Flestir urðu þeir á Austurlandi, eða 63, og 61 á Norðurlandi en miklu færri sunnanlands og vestan. Þá var munurinn margfaldur eftir prófastsdæmum eins og best kemur í ljós á norðausturhorni landsins. Í Norður-Þingeyjarprófastsdæmi voru þeir þrír en 39 í Norður-Múlaprófastsdæmi. Helstu fjölgunarskeið heimagrafreita voru þrjú. Hið fyrsta stóð frá því að fyrsti grafreiturinn var stofnaður, árið 1878, fram til 1918. Þá var tekið að beita meira aðhaldi vegna andstöðu biskups. Annað skeiðið hófst 1928 og stóð til 1937. Því lauk líklega vegna efnahags-kreppunnar sem þá ríkti en stofnun heimagrafreits gat haft töluverðan kostnað í för með sér. Síðasta fjölgunarskeiðið stóð svo frá því um 1940 þar til heimildarákvæði um heima-grafreiti var fellt úr lögum 1963, einkum vegna þrýstings frá þjóðkirkjunni.
Almenn skýring á fjöldaþróun heimagrafreitanna er sú að þeir séu sýnilegt tákn um þær félagssálfræðilegu aðstæður sem ríktu í sveitum landsins á blómaskeiði grafreitanna og einkenndust af ættarhyggju og átthagaást. Þetta skýrir á hinn bóginn ekki misjafna dreifingu heimagrafreita um landið og er torvelt að útskýra hana öðruvísi en að á þeim stöðum þar sem grafreitir voru flestir hafi efnislegar og hugrænar ástæður spilað saman.

“Buried in a Private Graveyard”. Novelties in Burial Rites in Iceland in the 19th and the 20th Centuries. Part II

Around 1880, an interesting change began to shape the burial customs in Iceland. Previously, all Icelanders were buried in common parish cemeteries, as elsewhere in Christian territories. However, more and more farmers began to ask for permission from the authorities both to bury their closest relatives on their own farms and to be buried there themselves. Because of how common this became, and how the change violated the Christian tradition, it is an interesting religious, cultural and socio-historical phenomenon.

In this article, this innovation is explored by revealing how many private graveyards were founded in Iceland, investigating their distribution around the country and examining their size. The research is largely based on previously unexplored documentary sources and the official registration of burials on the website of the Icelandic Cemeteries Association, gardur.is.

The result is that approximately 170 private graveyards were established in the country. Their distribution varied greatly from region to region. The main periods of increase occurred in the spans of 1878–1918, 1928–1937 and 1940–1963. It is believed that private graveyards are a visible symbol of the socio-psychological conditions that prevailed in the rural areas of the country during their heyday. They represented respect for the family and ancestry intertwined with a love of the farm and the home district. However, this does not explain the uneven distribution of private graveyards around the country, which is difficult to do without taking into account the reciprocity of various objective and subjective reasons.

Um höfund (biography)

Hjalti Hugason

Prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.

Niðurhal

Útgefið

2021-08-25