Gullkálfur í eldlínunni

Um ritskýringu og útleggingu sögunnar um gullkálfinn í 2Mós 32.1–6

Höfundar

  • Jón Ásgeir Sigurvinsson

Lykilorð:

Gamla testamentið, ritskýring, gullkálfurinn, Bet-El, biskup Íslands

Útdráttur

Í greininni leitast höfundur við að varpa ljósi á merkingu og tilgang hinnar þekktu sögu um gullkálfinn og dansinn í kringum hann í 2Mós 32.1–6 í upprunalegu sögulegu og bókmennta-legu samhengi sínu með vísun í nýjustu hugmyndir fræðimanna og niðurstöður þeirra. Kveikjan að ritun greinarinnar var gagnrýni sem kom fram á prédikun biskups Íslands í útvarpsguðsþjónustu við setningu Alþingis 10. september 2024 þar sem hún lagði út af lexíu sunnudagsins þar á undan, 15. sunnudags eftir þrenningarhátíð. Túlkun biskups á táknrænni merkingu gullkálfsins er dæmigerð fyrir þá útbreiddu tilhneigingu í nútímanum að sjá í kálfinum myndhverfingu fyrir efnishyggju sem felst í því að leggja allt sitt traust á efnisleg gæði og ríkidæmi. Gagnrýnin sem kom fram í kjölfar guðsþjónustunnar var rökstudd með því að rangt væri að túlka söguna sem myndhverfingu fyrir efnishyggju eins og algengt er að gert sé af því að hún byggðist ekki á upprunalegri merkingu og tilgangi sögunnar, sem væri að mati gagnrýnanda „fordómafyllsta falsfrétt sögunnar“. Ritningartextinn væri sprottinn af hatri höfundanna, gyðinglegra fræðimanna, á öðrum trúarbrögðum en gyðingdómi og var í því sambandi staðhæft að líkneskið hefði verið líkneski af egypska guðinum Apis. Það væri því óásættanlegt að lagt væri út af þessum texta í þjóðkirkjunni. Virtist gagnrýnandinn líta svo á að meint hatur höfundanna á öðrum trúarbrögðum fyrir hálfu þriðja árþúsundi leiddi af sér að notkun sögunnar í helgihaldi kirkjunnar hlyti að skiljast sem hatursáróður í garð þeirra sem tilheyra öðrum trúabrögðum en kristni og gyðingdómi, óháð því hvort eða hvernig lagt væri út af sögunni í prédikun. Í greininni kemst höfundur að þeirri niðurstöðu að í framangreindri gagnrýni sé ekki gerður nauðsynlegur greinarmunur á því sem kallað er túlkunarfræði (e. hermeneutics) annars vegar og því sem kallast ritskýring (e. exegesis) hins vegar en með henni er markmiðið að komast að merkingu og markmiði texta í upprunalegu bókmennta- og sögulegu samhengi hans. Í greininni er komist að þeirri niðurstöðu að staðhæfingar er lúta að því að gullkálfurinn tákni egypskan guð í upprunalegu bókmennta- og sögulegu samhengi sínu eigi ekki við rök að styðjast heldur vilji höfundar upphaflegu frásagnarinnar beina spjótum sínum að helgihaldinu í Bet-El, sem sagt er frá í 1Kon 12.28–29, og þeirri guðsmynd sem hætta var á að slíkt helgihald hefði í för með sér að mati höfunda sögunnar í 2Mós 32.1–6. Þegar allt komi til alls sé sögunni um gullkálfinn ætlað að verja frelsi Guðs og óhöndlanleika og andmæla guðsmynd sem felur í sér þá trú að hemja megi guðdóminn og setja honum skorður, t.d. í listilega útbúnu líkneski.

Um höfund (biography)

Jón Ásgeir Sigurvinsson

Aðjunkt við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.

Niðurhal

Útgefið

2025-06-03