„Móðir Guðs, meyja, við biðjum þig, vertu femínisti!“
Sálmafræði frá sjónarhóli pönkbænar Pussy Riot
Lykilorð:
Sálmafræði, Maríufræði, afnýlenduvæðing, kynhlutverk, Pussy Riot, safnaðarsöngur, félagslegt réttlæti, þjóðtónlistarfræðiÚtdráttur
Maríufræðin hefur lengi verið baráttufólki fyrir kvenréttindum hugleikin. Frægt dæmi um rammpólitíska nýtúlkun á Maríufræðinni er gjörningur pönkhljómsveitarinnar Pussy Riot í dómkirkju Krists frelsara í Moskvu í febrúarmánuði árið 2012. Þá stilltu meðlimir hljómsveitarinnar sér upp næst helgimyndahliðinu. Þar signdu þær sig, hófu háværan söng undir íkoninu af Maríu meyju og gagnrýndu undirlægjuhátt kirkju og menntastofnana gagn-vart ríkisvaldinu. Pussy Riot kölluðu gjörninginn pönkbæn og ákölluðu Maríu meyju í bæn sinni. Pönkbænin var sungin í helgidóminum og því má með nokkrum rétti túlka ákall Pussy Riot til meyjarinnar sem sunginn bænasálm. En er um sálm að ræða að hefðbundnum skilningi? Hvað er sálmur og geta sálmar verið siðvenjubrjótandi? Hvers konar guðfræði-hugmyndir um kynhlutverk eru taldar hæfa Maríu? Á hvaða hátt mótar myndmál sálmanna hugarheim þeirra sem sækja helgihaldið og hvers konar kynhlutverk birta þeir? Hvaða áhrif geta pönkbænin og femínískar og afnýlenduvæddar áherslur haft á það hvernig Maríu-myndirnar eru túlkaðar í sálmabókinni?
Greininni er skipt í fimm undirkafla. Í fyrsta undirkaflanum er horft í baksýnisspegil til bandarískra og brasilískra kvennaguðfræðinga í lok tuttugustu aldar. Í öðrum undirkaflanum er greint frá straumum og stefnum í sálmafræði með sérstakri áherslu á félagslegt réttlæti er varðar kyn og afnýlenduvæðingu. Í þeim þriðja víkur sögunni að guðfræðilegri umræðu um Pussy Riot viðburðinn og dregin eru fram helstu atriði sem tengja má við sálmafræðina. Í fjórða kaflanum eru skoðuð teikn um aukinn fjölbreytileika í sálmabókinni og í fimmta og síðasta kaflanum er meyjarstef Sálmabókar íslensku kirkjunnar greint í ljósi sálmafræðinnar.