Sjálfsvíg og sveitasamfélag

Aðdragandi — aðferðir — afleiðingar

Höfundar

  • Hjalti Hugason

Lykilorð:

Sjálfsvíg, Ísland, nítjánda öld, sjálfsvígsaðferðir, samfélag

Útdráttur

Í greininni er fjallað um sjálfsvíg á Íslandi á nítjándu öld í félags- og menningarlegu umhverfi sínu en fram á síðustu áratugi rannsóknartímans var hér hefðbundið sveitasamfélag enn við lýði. Sveitaheimilið var þá vettvangur fyrir líf og starfs alls þorra þjóðarinnar hvað varðaði dagleg störf, félagsleg samskipti, menningarlega og andlega iðju, afþreyingu og hvíld. Það var því jafnframt umgjörð langflestra sjálfsvíga þótt vissulega kæmi fyrir að fólk tæki eigið líf í verstöðvum eða jafnvel á faraldsfæti.
Ofangreindar aðstæður höfðu margháttuð áhrif á þær aðferðir sem fólk greip til við að binda enda á líf sitt. Langflest völdu drekkingu enda var auðvelt að finna sér stað og skapa sér tækifæri til þessa í nánasta umhverfi sínu svo til um land allt. Næstalgengasta sjálfsvígs-aðferðin var henging og þar næst skurðir og/eða stungur með eggjárnum, t.d. sláttuljám. Af þeim var hálsskurður algengastur. Leiddar eru líkur að því að þar skipti máli að sauðfé var almennt slátrað á þann máta og hafði almenningur því mikla reynslu af hálsskurði og þekkingu á hvaða áhrif hann hefði á búpening.
Venjuleg sveitaheimili voru tæpast fær um að mæta sjálfsvígum upp á eigin spýtur. Yfirvöld kröfðust þess að leitast væri við að lífga hin látnu við og leiðbeiningar þar að lútandi voru birtar í lækningakverum sem ætluð voru almenningi. Þá þurfti að hjúkra þeim sem lifðu um lengri eða skemmri tíma eftir sjálfsvígstilraun. Loks var sýslumönnum ætlað að halda réttar-próf vegna sjálfsvíga til að leiða í ljós ástand einstaklingsins sem látist hafði og hugsanlegar ástæður fyrir sjálfsvíginu, auk þess sem þeir áttu að úrskurða um greftrunarmáta og hugsan-lega upptöku á eigum.

Um höfund (biography)

Hjalti Hugason

Prófessor emeritus við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. 

Niðurhal

Útgefið

2025-06-03