Sjálfsvíg á Íslandi á nítjándu öld
Tilraun til þjóðhátta- og sagnfræðilegrar greiningar
Lykilorð:
Sjálfsvíg, Ísland, nítjánda öld, löggjöf, samfélagÚtdráttur
Í greininni er lagður grunnur að þjóðhátta- og sagnfræðilegri rannsókn á sjálfsvígum á Íslandi á nítjándu öld. Í upphafi er gerð grein fyrir þeim lögum og reglum sem giltu um greftrun þeirra sem frömdu sjálfsvíg en í þeim kemur fram afstaða ríkis og kirkju til verknaðarins. Var sú afstaða mjög fordæmandi fram til 1870 því að þangað til giltu miðaldavenjur í þessu tilliti sem gerðu það að verkum að grafa skyldi þau sem sviptu sig lífi utan kirkjugarðs nema unnt væri að sýna fram á að atburðurinn hefði orðið vegna geðrænna veikinda. Ef svo var átti að grafa innangarðs en í kyrrþey.
Þá er gerð grein fyrir heimildum um sjálfsvíg en þau eru ekki síst landsmálablöð og sagnarit frá nítjándu öld sem vissulega eru alþýðlegs eðlis. Bent er á þau vandkvæði sem oft gera vart við sig þegar ákvarða skal hvort raunverulega hafi verið um sjálfsvíg að ræða. Í þessari rannsókn er atvik aldrei talið sjálfsvíg nema samtímafólk hafi litið svo á.
Heimildir hafa fundist um 167 sjálfsvíg, 133 meðal karla en 34 meðal kvenna. Opinberar tölur sem gilda um hluta tímabilsins gefa þó til kynna að heildartalan hafi verið umtalsvert hærri. Sérstaka athygli vekur að sjálfsvígstíðni virðist hafa verið sérstaklega mikil meðal ungra kvenna, mun meiri en meðal ungra karla. Kann það að hafa stafað að nokkru leyti af því að framtíðarsýn þeirra hafi verið mun verri en karlanna þar eð þær höfðu minni möguleika á að verða sjálfra sín en þeir. Sjálfsvígstíðnin meðal aldraðra karla var meiri en meðal ungra karla en áfram var hún þó meiri meðal kvennanna í þessum aldurshópi. Virðist það koma heim og saman við það karlaveldi sem ríkti á öllum sviðum samfélagsins.
Loks er fjallað sérstaklega um nokkur sjálfsvíg meðal tveggja samfélagshópa sem höfðu sérlega viðkvæma stöðu, þ.e. meðal ungs fólks og aldraðs.