Kirkjusagan sem útlegging ritningarinnar

Endurskoðun á gamalli tilgátu

Höfundar

  • Sigurjón Árni Eyjólfsson

Útdráttur

Þann 18. júlí 1946 hélt Gerhard Ebeling (1912–2001) fyrirlestur í tengslum við doktorspróf sitt hið meira (stundum kallað prófessorspróf, þ. Habilitation) þegar hann hafði fullnægt þeim kröfum sem gerðar eru til veitingar prófessors-embættis í Þýskalandi og sums staðar annars staðar í Evrópu. Fyrirlesturinn, sem nefnist „Kirchengesichte als Geschichte der Auslegung der heiligen Schrift“, birtist ári síðar í tímaritinu Zeitschrift für Theologie und Kirche og síðan aftur 1964 í ritgerðasafni Ebelings: Wort Gottes und Tradition.1 Ebeling hafði þá sinnt prófessorsstöðu í kirkjusögu við háskólann í Tübingen árin 1947–1954 en í kjölfarið færði hann sig yfir í samstæðilega guðfræði. Skrefið var út af fyrir sig stutt því að náin tengsl eru milli kirkjusögu og samstæðilegrar guðfræði í verkum Ebelings og hafa fræðigreinarnar hvor um sig alla tíð verið miðlægar í fræðiiðkun hans. Áhrif hans sem guðfræðings einskorðast þó ekki bara við kirkjusögu og samstæðilega guðfræði heldur ná þau ótvírætt til allra helstu sviða akademískrar guðfræði. Greinar hans „Kirchengeschichte als Geschichte der Auslegung der heiligen Schrift“ frá 1946 og sömuleiðis „Die Bedeutung der historisch-kritische Methode für die protestantische Theologie und Kirche“ frá 1950 urðu strax, og eru enn, skyldulesning í guðfræðinámi í þýskumælandi löndum og víðar.2 Þær kallast á og er gott að lesa þær saman.

Í þessari grein mun ég í upphafi reifa það guðfræðilega samhengi sem Ebeling skrifar inn í stuttu eftir lok síðari heimsstyrjaldar og þá ekki síst þær guðfræðilegu áherslur sem mótað höfðu sýn manna á hlutverk kirkjusögunnar og stöðu hennar innan guðfræðideilda, gera síðan grein fyrir efni greinar hans frá 1946 og veita innsýn í þá umræðu sem skapast hefur um hana á liðnum árum en þar ber hæst umfjallanir kirkjusagnfræðinganna Albrechts Beutels, Volkers Leppins3 og Martins Keßlers og trúfræðingsins Michaels Roths.

Um höfund (biography)

Sigurjón Árni Eyjólfsson

Héraðsprestur.

Niðurhal

Útgefið

2024-06-28