Kirkjuleg lýðræðishreyfing

Lútherskir fríkirkjusöfnuðir á Íslandi fyrir 1915. Þriðja grein

Höfundar

  • Hjalti Hugason

Lykilorð:

Íslensk kirkjusaga, trúfrelsi, lútherskir fríkirkjusöfnuðir, kirkjuleg lýðræðis-hreyfing

Útdráttur

Í þessari grein er fram haldið athugun á þróun trúfrelsis á Íslandi á fyrsta þróunarskeiði þess en greinar þar að lútandi hafa birst í tveimur síðustu heftum þessarar ritraðar.

Trúfrelsi var komið á með stjórnarskrá um sérmál Íslendinga (þ.e. innanríkismál) árið 1874. Þar var kveðið á um að heimilt væri að stofna trúfélög utan evangelísk-lúthersku ríkiskirkj-unnar sem nú skyldi, vel að merkja, verða þjóðkirkja en það fól m.a. í sér að söfnuðum var veitt aukin hlutdeild í stjórn eigin mála. Með lögum um utanþjóðkirkjumenn, sem sett voru 1886, var kveðið nánar á um réttindi og skyldur þeirra sem notfærðu sér þennan nýja rétt.

Á rannsóknartímabilinu voru stofnaðir hér níu fríkirkjusöfnuðir á lútherskum grunni, auk þess sem trúfélög á öðrum kenningargrundvelli hösluðu sér völl hér á landi. Allir voru söfnuðirnir stofnaðir til að bregðast við staðbundnum vanda sem við var að glíma í starfi kirkjunnar í héraði. Þegar ekki tókst að leysa vandann í samvinnu við kirkjustjórnina tók almenningur í a.m.k. átta af söfnuðunum málin í eigin hendur og stofnaði lútherska söfnuði utan þjóðkirkjunnar. Í þessari rannsókn er því litið svo á að fremur hafi verið um kirkjulega lýðræðishreyfingu að ræða en dæmigerða fríkirkjuhreyfingu. Einnig hefur verið sýnt fram á að tiltölulega rúm ákvæði laganna frá 1886 voru útfærð með stjórnvaldsákvörðunum sem allar miðuðu að því að setja starfi fríkirkjusafnaðanna sem þrengst mörk og fella starf þeirra sem mest að starfsháttum og rekstrarfyrirkomulagi þjóðkirkjunnar. Kom biskup landsins fram sem fastur ráðgjafi stjórnvalda í þessu efni.

Í þessari þriðju grein er sýnt fram á að sambúð þjóðkirkjunnar og fríkirkjusafnaðanna var almennt á friðsamlegum nótum. Undantekning var þó frá því á Austurlandi á fyrstu árum tuttugustu aldar. Þá starfaði hjá fríkirkjusöfnuðunum þar forstöðumaður sem hvorki var prestsmenntaður né vígður. Sniðgekk hann fyrirmæli varðandi mannfjöldaskýrslur og virti ekki venjur þjóðkirkjunnar um að sóknarprestum bæri réttur til að framkvæma öll prestsverk fyrir sóknarbörn sín. Að baki tregðunni við skýrsluskilin lá viðleitni forstöðumannsins til að forðast það að embættismenn þjóðkirkjunnar fengju nokkurn tilsjónarrétt yfir söfnuði hans. Að öðru leyti skýrðust deilurnar af ólíku eðli þjóðkirkjunnar og fríkirkjusafnaðanna. Þjóðkirkjan var hefðbundin, lögformleg stofnun en söfnuðirnir frjáls félagasamtök sem var óeiginlegt að fella starf sitt að landfræðilegum mörkum.

Með stjórnarskrárbreytingum árið 1915 var trúfrelsi einstaklinga fest í sessi og lauk þar með fyrsta þróunarskeiði trúfrelsis í landinu.

Um höfund (biography)

Hjalti Hugason

Prófessor emeritus við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.

Niðurhal

Útgefið

2024-06-28