„Heldri kona“ beitir sér fyrir auknum réttindum kvenna

Valgerður Jónsdóttir (1863–1913)

Höfundar

  • Arnfríður Guðmundsdóttir

Lykilorð:

Valgerður Jónsdóttir, Þórhallur Bjarnarson, Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Kvennabarátta og kristin trú, Hið íslenska kvenfélag, Kvenréttindafélag Íslands, lög um rétt kvenna til embættisnáms, námsstyrks og embætta, lög um kosningarétt og kjörgengi kvenna til Alþingis

Útdráttur

Kirkja og kristin trú gegndu mikilvægu hlutverki í kvennabaráttunni í hinum vestræna heimi á síðari hluta nítjándu aldar. Konurnar sem beittu sér hvað mest fyrir auknum réttindum kvenna voru margar með sterk tengsl inn í kristin samfélög og beittu gjarnan trúarlegri orðræðu í baráttu sinni en andstæðingar kvennabaráttunnar vísuðu líka oft og iðulega í Ritninguna. Lok nítjándu aldar og upphaf þeirrar tuttugustu mörkuðu þáttaskil í lífi íslenskra kvenna, þegar barátta þeirra fyrir auknum réttindum leiddi til þess að samþykkt voru lög um rétt kvenna til embættisnáms, námsstyrks og embætta (1911) og kosningarétt og kjörgengi til Alþingis (1915). Í greinasafninu Kvennabarátta og kristin trú (2009) var leitast við að greina áhrif kristinnar trúar á þær konur sem leiddu baráttuna fyrir kynjajafnrétti á Íslandi um aldamótin 1900, sem og þær kvennahreyfingar sem urðu til á þessum tíma og höfðu það að markmiði að efla konur og auka þátttöku þeirra í samfélaginu. Þessi grein er byggð á rann-sóknum sem kynntar eru í greinasafninu, en hér er kastljósinu beint að Valgerði Jónsdóttur (1863–1913), eiginkonu Þórhalls Bjarnarsonar biskups Íslands (1855–1916), og lögð áhersla á sterk tengsl á milli kvennabaráttunnar og kristinnar trúar sem koma fram í lífi Valgerðar og starfi. Valgerður tók virkan þátt í störfum kvennahreyfinga sem urðu til í kringum aldamótin 1900 og áttu drjúgan þátt í að breyta stöðu kvenna í íslensku samfélagi til fram-búðar. Vinkona Valgerðar, Bríet Bjarnhéðinsdóttir, hélt því fram í minningargrein um Valgerði, að hún hefði tilheyrt þröngum hópi „heldri kvenna“ sem nýttu forréttindi sín til að bæta samfélagið og gera það hliðhollara þeim sem lög og samfélagslegar hefðir og hugmyndir höfðu fram að þessu verið fjandsamleg.

Um höfund (biography)

Arnfríður Guðmundsdóttir

Prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.

Niðurhal

Útgefið

2024-06-28