Þróun trúfrelsis á Íslandi 1874–1915

Umræður og lagarammi

Höfundar

  • Hjalti Hugason

Lykilorð:

Íslensk kirkjusaga, trúarbragðaréttur, trúfrelsi

Útdráttur

Með stjórnarskránni 1874 var landsmönnum heimilað að snúa baki við evangelísk-lútherskri trúarhefð og bindast samtökum um iðkun annars konar trúar. Trúfrelsið var þó takmarkað þar sem ekki var heimilt að standa utan allra trúfélaga og hafna átrúnaði þar með. Nærtækast er að líta svo á að trúfrelsið hafi einkum átt að tryggja kristnum kirkjudeildum frelsi til að starfa í landinu.
Var fljótt tekið að benda á að staða fólks sem ekki samsamaði sig þjóðkirkjunni væri óljós og réttindi þess þröng, trúfrelsi hefði því í raun ekki komist á í landinu.
Stærsta skrefið í trúfrelsisátt sem stigið var á tímabilinu kom fram í lögum um utanþjóð-kirkjufólk frá 1886 en þau tóku til allra helstu atriðanna sem talin voru skerða trúfrelsið: prestsverk unnin af forstöðumönnum í söfnuðum utan þjóðkirkjunnar skyldu hafa sömu lögformlegu þýðingu og athafnir þjóðkirkjupresta; þau sem guldu til trúfélags eða safnaðar utan þjóðkirkju urðu gjaldfrjáls gagnvart henni og fólki voru tryggð þau réttindi að geta gengið í borgaralegt hjónaband ef annað hjónaefna eða þau bæði væru utan þjóðkirkju. Kristnum trúfélögum var þar með tryggt víðtækt frelsi til starfs.
Lögin sniðu einstaklingum aftur á móti þröngan stakk. Einkanlega kom þetta fram í tilviki fólks sem ekki gekk í trúfélag sem hafði á að skipa forstöðumanni með konunglega stað-festingu. Strangt til tekið ber enda fremur að líta svo á að slík staða utan trúfélaga hafi frekar verið umborin en að beinlínis hafi verið leyfilegt að taka sér hana til langframa og lýsa þar með yfir trúleysi. Fólk sem þessa stöðu hafði taldist enda að nokkru leyti til þjóðkirkjunnar þar sem það var ekki undanskilið neinu gjaldi til hennar. Því virðist ljóst að sú stefnumótun sem fram fór á tímabilinu hafi falið í sér trúarlegt félagafrelsi í ríkara mæli en trúarlegt einstaklingsfrelsi. Þróun trúfrelsis á tímabilinu virðist því að öllu leyti hafa rúmast innan svokallaðrar dissenter-hefðar. Olli skylda þeirra sem stóðu utan allra trúfélaga til að greiða þjóðkirkjunni eigi að síður gjöld mestu þar um.
Árið 1915 var trúfrelsið loks útvíkkað þannig að heimilt varð að standa utan allra trúfélaga. Með þessu urðu mikilvæg straumhvörf þar sem trúfrelsið tók nú bæði til trúarlegs félaga-frelsis og einstaklingsfrelsis.

Um höfund (biography)

Hjalti Hugason

Prófessor emerítus við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.

Niðurhal

Útgefið

2023-01-12